11.4.2011 | 00:17
ICESAVE - þörf á faglegum vinnubrögðum
I framhaldi af niðurstöðu kosningar um Icesavesamninginn er nauðsynlegt að endurskoða þau vinnubrögð sem hafa verið viðhöfð í þessum máli f.h. landsins. Alveg er nauðsynlegt að næstu skref sem verða tekin í þessu máli, verði fagleg og vönduð og á þann hátt að almenningur hafi traust á því að verið sé að gæta hagsmuna þeirra af fullum þunga.
Um er að ræða málefni sem varðar alla þjóðina og því mikilvægt að meirihluti þings (og þar með almennings) standi að baki þessarri vinnu sem verður sett af stað. Þannig verði valdir aðilar í fyrirsvar fyrir landið sem njóta trausts almennings og hafa fullnægjandi þekkingu og reynslu til að gæta hagsmuna landsins. Hafa verður í huga að öll orð hafa ábyrgð og þannig verður að skoðast vandlega hvaða ummæli stjórnmálamenn láta falla um þetta mál innanlands og í útlöndum. Skoða verður einnig hvernig hagsmuna landsins verður gætt með upplýsingagjöf til erlendra fjölmiðla og stjórnvalda eftir atvikum. Nálgast verður þetta mál líkt og undirbúning fyrir dómsmál, þótt eðli máls skv. spili hér einnig inn í stjórnmál að sumu leyti. Krafa almennings er að unnið verði fagmannlega í þessu máli.
Niðurstaða þjóðaratkvæðagreiðslunnar og vinnubrögð ríkisstjórnar í þessu máli fram til þessa, gefur hins vegar tilefni til að spyrja eftirfarandi spurninga: Treystir almenningur núverandi ríkisstjórn til að vinna í þessu máli áfram ? Er ríkisstjórnin með fullt umboð landsmanna ? Ég tel að svo sé því miður ekki.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 00:26 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)